SÖGUR & ÞJÓÐSÖGUR

KERLINGIN

Í fimmtán mínútna akstursfjarlægð frá Stykkishólmi er Kerlingarskarð. Skarðið er í raun vegur sem hefur ekki verið haldið við frá árinu 2001 þegar Vatnaleið opnaði. Kerlingaskarð tengdi norður- og suðurhluta Snæfellsness. Efst á skarðinu er steintröll sem kallast Kerlingin.
Það eru margar sögur um tilurð kerlingarinnar í Kerlingarskarði og er þetta ein þeirra. Kerling lagði af stað heiman frá sér og hélt vestur Snæfellsnes. Hún hafði með sér hest og á honum klyfjar með skyrtunnu og heysátu, einnig hafði hún með sér hafur. Kerlingin var sein fyrir og þurfti að flýta sér nokkuð. Þegar hún var komin áleiðis vestur fjallgarðinn á móts við Ljósufjöll losnaði sátan af klyfjunum og varð eftir þar sem nú heitir Sátan. Kerlingin brá á það ráð að hanga sjálf í klyfjunum á móti tunnunni. Hesturinn þreyttist fljótt og gafst að lokum upp þar sem fjallið Hesturinn er nú. Kerlingin ætlaði þá að bera tunnuna sjálf en gafst upp og skildi hana eftir þar sem fjallið Skyrtunna er nú. Hafurinn gekk með Kerlingu en hún var á mikilli hraðferð þar sem brátt myndi dagur rísa og skildi hafurinn eftir í fjallinu sem nú er þekkt sem Hafursfell. Í þann mund sem hún kemur upp á brún fjallsins sem nú heitir Kerlingarfjall kom sólin upp og varð hún þá samstundis að steini og er þar enn þann dag í dag.

KERLING.jpg
 
HELGAFELL.jpg

HELGAFELL

Helgafell er 73 metra hátt og þaðan er frábært útsýni til fjalla og út á Breiðafjörð. Þjóðtrúin segir að þrjár óskir uppfyllist ef maður lítur aldrei um öxl og mælir ekki orð af munni á meðan gengið er á fjallið. Óskirnar mega einungis vera góðshugar, þær má ekki segja neinum og sá sem óskar sér þarf að horfa til austurs. Guðrún Ósvífursdóttir, ein helsta sögupersóna Laxdælu bjó síðari hluta ævi sinnar á Helgafelli. Þar var hún greftruð að írskum sið.