TÖFRANDI SJÁVARÞORP
Draumastaðsetning
Stykkishólmur stendur við Breiðafjörð sem er annálaður fyrir náttúrufegurð og stórbrotið dýralíf. Eitt af einkennum Stykkishólms eru gömlu uppgerðu húsin sem setja svip á bæinn, það er engu líkara en tíminn hafi staðið í stað.
NÓG AÐ GERA - NÓG AÐ UPPLIFA
Heimsæktu öll frábæru söfnin
Listir, saga, fræðsla og fleira. Í Stykkishólmi geta allir fundið safn við sitt hæfi. Hverju hefur þú áhuga á?
Kíktu í búðir, á veitingastaði, lista- & handverks gallerí
Vantar þig fallegan minjagrip, bók, hamar, lopapeysu eða smjör? Eða langar þig kannski í ljúffengan kvöldverð úr hráefnum úr héraði? Líttu þá við í einhverri af okkar frábæru verslunum, veitingastöðum eða galleríum.
Hlustaðu á þögnina
Ef þú ert að leita að stressfríu umhverfi staldraðu þá við og njóttu kyrrðarinnar. Stykkishólmur er staður þar sem þú getur dvalið í núinu.
Prófaðu sundlaugina
Sundlaug, vatnsrennibraut og heitir pottar með einstöku vottuðu jarðhitavatni! Það eitt er nægilega góð ástæða til að heimsækja Stykkishólm.
Andaðu að þér hinu Breiðfirska sjávarlofti
Þegar þú ferðast um Breiðafjörð á bát reistu höfuðið á móti vindinum og andaðu að þér söltu og fersku sjávarloftinu. Þér mun líða (og líta út) eins og breiðfirskum sjóara.
Gakktu upp að vitanum á Súgandisey
Það þarf ekki að ferðast langt til að upplifa stórfenglegt útsýni. Gakktu upp að vitanum á Súgandisey og njóttu stórfenglegs útsýnis yfir bæinn. Snúðu þér svo við og sjáðu Breiðafjörð í allri sinni dýrð.
Vertu Hólmari um stund!
UMHVERFISVÆNN BÆR
Stykkishólmur hefur verið framarlega í umhverfismálum á Íslandi og var ásamt hinum fjórum sveitarfélögunum á Snæfellsnesi fyrsta samfélag í Evrópu til að hljóta EarthCheck vottun. Bærinn er rekinn á eins umhverfisvænan máta og hægt er og var meðal annars fyrsta bæjarfélag á Íslandi til að innleiða sorpflokkun og hætta notkun plastpoka. Stykkishólmshöfn var líka fyrsta höfn á Íslandi til að hljóta Bláfána og bærinn hlaut viðurkenningu EDEN sem gæðaáfangastaður árið 2011.