ÉG ER HÓLMARI
SÍMON
Símon er goðsögn í lifanda lífi, sannkallaður harðjaxl en með hjarta úr gulli. Símon er frumkvöðull og hefur verið í forystu í ræktun bláskeljar á Íslandi. “Ég er ekki fæddur Hólmari, ég kom hingað fyrir um þrjátíu árum síðan. Ég elti stelpu í Hólminn og hún sannfærði mig um að flytja hingað og við enduðum á því að gifta okkur. Við erum ekki lengur gift en ég er að eilífu þakklátur henni fyrir að ná mér hingað”. Símon lærði að rækta bláskel og þara með því að prufa sig áfram og jafnframt læra af mistökum sínum.
“Ég byrjaði að vinna með bláskelina árið 2007. Ræktunin tekur langan tíma, það tekur bláskelina þrjú ár að ná réttri stærð. Þar sem það tekur langan tíma að rækta skelina þá þar af leiðandi tekur það líka langan tíma að breyta og bæta til að sjá hvað virkar best. Ég rækta bláskelina á köðlum, þannig er hún laus við sand og drullu þegar hún er fullvaxin.“ Á öldum áður var bláskel og annar skelfiskur ekki talinn góður matur af Íslendingum. Hún var það síðasta sem men lögðu sér til munns áður er þeir sveltu til dauða. Máltakið „að lepja dauðann úr skel” er komið frá því.
Þrátt fyrir það hefur vinsæld bláskeljarinnar dafnað og er hún nú talin vera sannkallað ljúfmeti og herramannsmatur. Það er erfitt að finna stað sem framleiðir betri bláskel en í köldum sjónum innan um eyjarnar og skerin út af Stykkishólmi. “Fyrsta árið mitt með uppskeru var aðeins einn maður sem var áhugasamur um að kaupa skelina. Það var Gunnar Karl, stofnandi Dill Restaurant sem var jafnframt fyrsti íslenski veitingastaðurinn til að hljóta Michelin stjörnu. Gunnar kom mér í gegnum þessa erfiðu fyrstu tíma og fyrir það er ég honum þakklátur. Fljótt fóru aðrir veitingamenn að fylgja honum og í dag sel ég um 7 tonn bara til veitingastaða í Stykkishólmi, það eru um 14 þúsund skammtar af bláskel”.
Elja, vinnusemi og staðfesta Símonar í ræktunina hefur skapað honum góðan orðstír um allan heim.
“Frægir kokkar eins og René Redzepi á Noma í Kaupmannahöfn og Magnum Nilsson á Faviken í Svíþjóð hafa verið að nota þ angið frá mér, þeir taka mitt þang fram yfir annað út af köldum og tærum sjónum á Íslandi sem endurspeglast í bragðinu”.
DAGBJÖRT
Dagbjört flutti í Hólminn 4 ára gömul og hefur búið þar alla tíð síðan. Móðurfólkið hennar er borið og barnfætt í eyjum Breiðafjarðar, afi hennar Jónas Pálsson var vitavörður þar í áratugi. Hún er af kraftmiklum Hólmurum komin og lítur á það sem forréttindi að búa í þessu fallega umhverfi, umkringd fjölbreyttri náttúru og góðu fólki.
Sem barn leit hún mikið upp til afa síns og bar virðingu fyrir starfi hans sem vitavörður. Í þá daga var ekki tekið út með sældinni að vera vitavörður, þung gashylki sem knúðu vitana voru dregin úr fjörunum upp brattar brekkur og kletta á handaflinu einu saman.
"Ég vissi að starfið hans afa míns var sjófarendum lífsnauðsyn" segir Dagbjört. "Vitarnir hafa allir sinn sjarma og þjóna þeim tilgangi að vísa veginn og leiðbeina".
Á árum áður voru vitar það eina sem leiðbeindi sjófarendum en tækniframfarir hafa breytt því. Enga að síður skipta vitar miklu máli. Vitinn í Súgandisey er til að leiðbeina skipum inn á hafnarsvæðið.
Nú er hægt að ganga út í eyjuna og horfa yfir Breiðafjörðinn og fylgjast með bátum og skipum á leið í land eða fjölbreyttu dýralífinu og athuga hvort hvalur eða selur birtist á haffletinum.
"Afi hafði sterk tengsl við náttúruna, hann leit til sólar til að vita hvað tímanum leið og horfði í skýin til að spá fyrir um veðrið. Andlitið var markað af sjósókn og hendur hans báru mikilli erfiðisvinnu vitni ".
Víðfeðmi, fjölbreytileiki og nálægðin við náttúruna skiptir Hólmara miklu máli. Frelsið er mikið en það er hægt að ganga upp á hóla og fjöll og svo snúa sér hálfhring og horfa á víðáttu til allra átta.
Þegar Dagbjört er spurð hvað sé best við að búa í Hólminum, segir hún brosandi: "Það eru forréttindi að búa í þessu fallega umhverfi, með stóran hluta af fjölskyldunni hjá sér, svo er mannlífið svo ljómandi gott".
KRISTJÁN
Kristján Sveinsson er kajakræðari og fjallgöngumaður. Hann er ævintýramaður, vinnusamur, framsækinn og jákvæður maður með sterkar taugar til fjölskyldu og samfélagsins. Eða í stuttu máli; “Hólmari”.
“Ég fékk áhuga á kajökum snemma á unglingsárunum þegar eldri frændi minn og vinur hanns keyptu kajak saman og fóru að róa á ánum fyrir sunnan. Ég keypti fyrsta kajakann minn með fermingarpeningunum mínum og gerðist meðlimur í nýstofnuðum kajakklúbbnum stuttu seinna”.
Eftir allan þennan tíma er kajakaróður ennþá stór hluti í hjarta Kristjáns og á hann nú og rekur Kontiki Kayak Tours í Stykkishólmi.
Breki er sonur Kristjáns og glöggir menn geta séð þá róa kajakanum saman í sjónum við Stykkishólm.
“Breki byrjaði að koma með mér á kajakann þegar hann var tveggja ára, við byrjuðum í innilauginni hjá kajakklúbbnum. Í fyrsta skipti sem hann kom út á sjó með mér var á þriggja ára afmælisdaginn hans. Hann elskar að koma með mér, núna situr hann fyrir framan hjá mér en einn daginn fær hann sinn eigin kajak og þá getum við róið hlið við hlið”.
Kristján lýsir því að róa á kajak í kringum Stykkishólm sem einstaka upplifun. “Allar litlu eyjarnar og skerin, þetta magnaða og fjölbreytta fuglalíf og þessi ríka saga gerir þetta að hinum fullkomna stað fyrir kajakróður. Rólegheitin í róðrinum fær fuglana til að slaka á og þeir stökkva ekki í burtu þegar þeir sjá kajakana heldur koma þeir til móts við okkur og sérstaklega lundinn. Stundum sjáum við hvali, eitt sumar sáum við 60 grindhvali koma inn fjörðinn. Það var einstakt að róa í kringum þessar stóru skepnur”. Kristján er kajakleiðsögumaður í Stykkishólmi.
Greta
Greta María er gullsmiður og sækir innblástur til náttúru og náttúruafla við sköpun sína. Hún nýtur þess að búa í Hólminum, bæði vegna ótæmandi uppsprettu hugmynda og ekki síst vegna þeirrar nálægðar sem hún upplifir í samfélaginu og við viðskiptavini sína.
"Ég hef alltaf haft gaman af því að skapa og vinna með höndunum. Þegar ég prófaði í fyrsta skiptið að búa til skartgripi, þá var ég búin að finna mína fjöl. Form og ófullkomleiki náttúrunnar eru minn helsti innblástur. Ég elska náttúruleg form, andstæður og liti".
Krafturinn og ógnin sem getur búið í náttúruöflunum reynir hún að láta endurspeglast í skartgripum sínum. Hún smíðar einnig hefðbundið íslenskt víravirki á þjóðbúninga sem er að upplagi úr náttúrulegum formum.
"Að búa í Stykkishólmi gefur mér kost á að fá innblástur frá öldum hafsins, vindinum sem blæs á villt blóm og sólinni sem skín á fjöllin, þetta gefur mér ævintýra og frelsistilfinningu".
Greta leggur mikið upp að vera í góðum samskiptum við viðskiptavini sína og gefur sér góðan tíma til spjalla við gesti og gangandi.
"Að vera gullsmiður í Stykkishólmi er frábært, nándin við viðskiptavininn er mikil og ég fæ að vita hvað viðskiptavinurinn vill. Það er nægur tími til að spjalla við þá sem koma á verkstæðið og ég hef gaman af því að hitta fólk hvaðanæva úr heiminum og heyra þeirra sögur".
STJÁNI
Stjáni Lár er fæddur og uppalinn í Stykkishólmi. Hann lifir og andar að sér töfrandi umhverfi Stykkishólms og Breiðafjarðar á hverjum einasta degi. Heimamenn segja að hann þekki eyjarnar betur en nokkur annar. Hann kann best við sig á bátnum sínum innan um náttúru og töfra Breiðafjarðar með ferðamönnum.
“Ég hef búið allt mitt líf í Stykkishólmi og vil ekki hafa það öðruvísi. Ég byrjaði að sigla um eyjarnar þegar ég var smástrákur með afa mínum. Það hlýtur að hafa verið ást við fyrstu sýn því ég hef aldrei litið til baka. Fjörðurinn hefur eiginlega verið bakgarðurinn minn og þar líður mér mest eins og heima hjá mér. Ég keypti fyrsta bátinn minn þegar ég var 13 ára og frá þeim degi var stefnan sett á líf fyllt af ævintýrum”.
Þið getið ekki hitt á meiri Hólmara en Stjána Lár.
“Ég elska að búa í Stykkishólmi. Þetta er hinn fullkomni staður fyrir mig. Hér er ég svo nálægt nátturunni og öllu því sem ég elska. Og að sjálfsögðu er gaman að búa á stað þar sem allir þekkja alla”.
Stjáni brosir og bætir við: “Ég er og mun alltaf vera Hólmari”.