Í tilefni af Hræðilegri helgi í Stykkishólmi verður Dagrún Jónsdóttir þjóðfræðingur með umfjöllun um andaglas, laugardaginn 17. febrúar kl. 17:00.
Andaglas hefur í áratugi verið stundað af ungmennum á Íslandi og er það enn í dag. Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur hefur rannsakað andaglas og safnað reynslusögum íslenskra ungmenna af leiknum.
Afþreyingarefni, fjölmiðlar og flökkusögnur gefa oftast til kynna að andaglas sé hættuleg skemmtun, þar sem allt geti gerst. Andaglas er yfirleitt stundað við kertaljós í myrkri eða á næturnar, í gömlum byggingum eða jafnvel kirkjugörðum. Í "leiknum" skapast ákveðið jaðarástand, þar sem þátttakendur opna gátt á milli heims þeirra lifandi og hinna látnu, þeir sem taka þátt í andaglasinu standa á þröskuldinum þar á milli.
Í erindinu verður fjallað um uppruna andaglass, birtingarmynd þess, flökkusögur og reynslu ungmenna. Einnig verður komið inn á þær reglur sem þarf að fylgja í andaglasinu og hugmyndir og trú þeirra sem taka þátt um hvað það er sem hreyfir glasið.