Guðný Ósk, sem heldur úti Instagram-reikningnum Royal Icelander, mun vera með fyrirlestur um dönsku konungsfjölskylduna á Dönskum dögum. Guðný er sérfræðingur í málefnum konungsfjölskyldunnar og mun fara yfir þær breytingar sem hafa orðið á dönsku konungsfjölskyldunni á árinu.
Hún mun m.a. fjalla um hvernig konungur Friðrik er og ætlar sér að verða, hvernig drottning Mary er og hvað Margrét drottning hefur verið að gera síðan hún eftirlét Friðriki hásætið. Guðný mun fara yfir nokkrar kenningar um af hverju Margrét lét Friðrik taka við með svona stuttum fyrirvara og hvað Jóakim prins hefur verið að gera undanfarna mánuði.
Guðný deilir reglulega fréttum og fróðleik um konungsfjölskyldur heimsins á Instagram-reikningi sínum Royal Icelander. Hún skrifaði BA-ritgerð sína um nútímavæðingu bresku konungsfjölskyldunnar og er oft álitsgjafi fjölmiðla á Íslandi um það sem er að gerast í konunglega heiminum.
Fyrirlesturinn fer fram á Amtasbókasafninu í Stykkishólmi, sunnudaginn 18. ágúst kl. 15:00.