Back to All Events

Einar Falur Ingólfsson - Útlit loptsins, veðurdagbók

Laugardaginn 30. nóvember, kl. 13 til 16, verður Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari í Norska húsinu og kynnir nýja bók sína, Útlit loptsins – Veðurdagbók. Útlit loptsins er í senn myndlistarverk í 366 hlutum, athugun á veðri tveggja ára á ólíkum öldum og dagbók höfundarins. Einar Falur var staðarlistamaður í Vatnasafni í Stykkishólmi þegar hann byrjaði að skrá í ljósmynd veðrið á hádegi dag hvern, hvar sem hann var staddur. Jafnframt bar hann opinbera veðurskráningu þess staðs saman við veðurathugun Árna Thorlaciusar kaupmanns í Stykkishólmi nákvæmlega 170 árum fyrr, á árunum 1852 og 53. Árni reisti og bjó í Norska húsinu, þar sem hann sinnti veðurathugunum sínum áratugum saman. Einar Fal hlakkar því til að kynna verk sitt heima hjá Árna, sem hann átti í samtali við gegnum tímann, og nærri Vatnasafni, þar sem hann vann helming ársins meðan hann skrásetti veðurdagbók sina.

Útlit loptsins – Veðurdagbók er 400 blaðsíður, í stóru broti. Jón Kalman Stefánsson ritar formála að bókinni og Einar Falur inngang um verkefnið. Einnig er birt ljóð eftir skáldið kunna Anne Carson um veðrið í Stykkishólmi en hún dvaldi líka og starfaði á sínum tíma í sex mánuði í Vatnasafni. Kind útgáfa gefur bókina út og verður hún á sérstöku tilboðsverði í Norska húsinu. Einnig verður hægt að panta prent eftir stökum verkum úr veðurdagbókinni en mörg verkanna í henni sýna byggingar og staði í Stykkishólmi og á Snæfellsnesi.