Norðurljós og jöklar hafa verið Þorvarði mjög hugleikin á undaförnum áratug eða svo, bæði þá sem ljóslista- og fræðimanni. Og raunar ekki síður sem náttúruunnanda og útivistarmanni. Í erindi sínu bregður hann upp myndum af ýmsum toga (kyrrmyndum, skeiðmyndum og kvikmyndum) af helstu náttúruundrum sem hann hefur kynnst á meðan hann hefur búið á Hornafirði. Samhliða þessu mun hann varpa fram hugleiðingum um tilgang og merkingu þess að reyna að nálgast náttúruna með einhvers konar myndavél „að vopni“. Hann mun í því sambandi ræða sérstaklega um sjónrænar rannsóknir á bráðnun jökla og hvaða kosti – og mögulega galla – þær hafa umfram aðrar algengar nálganir á það viðfangsefni.
Þorvarður Árnason er doktor í þverfaglegum umhverfisvísindum og einnig menntaður sem kvikmyndagerðarmaður. Hann hefur enn fremur fengist við landslagsljósmyndun um áratuga skeið. Þorvarður hefur verið forstöðumaður Rannsóknasetursins á Hornafirði síðan 2006 og er jafnframt í stöðu fræðimanns við Háskóla Íslands. Helsta rannsóknasvið hans lýtur að náttúru- og umhverfisvernd, meðal annars út frá verndun landslags og óbyggðra víðerna, verndarstýringu friðlýstra svæða og, síðast en ekki síst, vöktun og miðlun á upplýsingum um staðbundin áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga. Hann hefur haldið fjölda ljósmyndasýninga og gefið út eina ljósmyndabók, en á síðari árum hefur áhersla hans færst meira yfir á skeiðmyndir (timelapse) og kvikmyndir.
Nánari upplýsingar: