Landsmót UMFÍ 50+ í Stykkishólmi
Landsmót UMFÍ 50+ er haldið í Stykkishólmi dagana 23. – 25. júní 2023. Mótið er blanda af íþróttakeppni og kynningu á ýmis konar hreyfingu. Mótið er öllum opið sem verða 50 ára á árinu og eldri.
Engin krafa er um að þátttakendur séu skráðir í íþrótta- eða ungmennafélag. Allir geta tekið þátt í viðburðum Landsmóts UMFÍ 50+ á sínum forsendum.
UMFÍ heldur Landsmót UMFÍ 50+ í samstarfi við Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu og Sveitarfélagið Stykkishólm.
Opnað var fyrir skráningu 1. júní og er skráningarfrestur til 19. júní og verða þá greiðsluseðlar sendir út á þátttakendur. Greiðsla er forsenda þess að fá armband afhent í þjónustumiðstöð Landsmóts UMFÍ 50+.
Greinar og verð
Þátttökugjald er 5.500 krónur. Þátttakendur fá hvítt armband og gildir það á alla keppni og viðburði mótsins. Greiða þarf sérstaklega fyrir matar- og skemmtikvöld, sem kostar 4.000 krónur.
Að auki geta 18 ára og eldri keypt rautt armband í sundlauginni á mótssvæðinu og gildir það á ákveðna viðburði. Verð fyrir rauð armbönd er 2.000 krónur.
Keppt verður í: boccía, bridds, frjálsum íþróttum, golfi, götuhlaupi, hestaíþróttum, hjólreiðum, pútti, ringó, skák, stígvélakasti og sundi.
Þátttakendur með hvítt armband geta tekið þátt í sömu greinum og þau sem eru með rautt armband.
Opnar greinar eru: Badminton, biathlon (hlaupaskotfimi), borðtennis, frisbígolf, petanque, pílukast, körfubolti og sundleikfimi.
Skráning og allar upplýsingar um mótið á umfi.is